Oddur Gottskálksson
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Oddur Gottskálksson (1514/1515 – 1556) var meðal siðaskiptamanna í Skálholti og sá sem þýddi Nýja testamentið á íslensku. Hann var sonur Gottskálks „grimma“ Nikulássonar biskups á Hólum og fór ungur til Noregs til föðurfjölskyldu sinnar. Þaðan hélt hann til náms í Þýskalandi þar sem hann kynntist hugmyndum mótmælenda. Hann sneri aftur til Íslands fyrir 1535 og var ráðinn af Ögmundi biskupi. Í Skálholti kynnist hann Gissuri Einarssyni og fleiri siðaskiptamönnum og hefst handa við að þýða Nýja testamentið, að eigin sögn úti í fjósi:
- „Jesús, lausnari vor, var lagður í einn asnastall en nú tek ég að útleggja og í móðurmál mitt að snúa orði hans í einu fjósi.“
Hann hélt til Danmerkur þar sem hann lauk við þýðinguna og fékk leyfi konungs til að prenta hana. Prentuninni lauk 12. apríl 1540. Nýja testamentisþýðing Odds er fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku.