Sauðárkrókur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sauðárkrókur er bær í Sveitarfélaginu Skagafirði og eini kaupstaður Skagafjarðarsýslu. Á Króknum búa um 2600 manns sem hafa atvinnu af útgerð, fjölbreyttum iðnaði og verslun og þjónustu í síauknum mæli, en á Sauðárkróki hefur til dæmis Byggðastofnun höfuðstöðvar sínar. Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra er einnig staðsettur á Sauðárkróki. Þar er einnig Steinullarverksmiðja og stórt sjúkrahús. Kaupfélag Skagfirðinga er langstærsta fyrirtækið sem starfar á Sauðárkróki og rekur það mjög fjölbreytta starfsemi.
Bærinn var upphaflega í Sauðárhreppi, en varð að sérstökum hreppi, Sauðárkrókshreppi, árið 1907. Hinn hluti Sauðárhrepps varð að Skarðshreppi. Sauðárkrókur fékk kaupstaðarréttindi árið 1947.
Hinn 6. júní 1998 sameinuðust hrepparnir á ný ásamt 9 öðrum sveitarfélögum í Skagafirði: Skefilsstaðahreppi, Staðarhreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Rípurhreppi, Viðvíkurhreppi, Hólahreppi, Hofshreppi og Fljótahreppi, og mynduðu þau saman sveitarfélagið Skagafjörð.