Stöng (bær)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stöng er bær í Þjórsárdal sem Gaukur Trandilsson bjó í á 10. öld. Talið er að bærinn hafi farið í eyði árið 1104 eftir mikið öskugos í Heklu. Þá er talið að byggð í Þjórsárdal hafi alveg lagst af, jafnt á Stöng, Skeljastöðum, sem var framar í dalnum, og fjölda annarra bæja. Árið 1939 var Stangarbærinn grafinn upp og byggt yfir hann svo fólk geti áttað sig á búsháttum á þessum tíma. Í tilefni af 1100 ára afmæli byggðar á Íslandi 1974 var ákveðið að endurbyggja bæinn og var hann tilbúinn 1977. Reynt var að fylgja eftir fornleifafræðilegum heimildum ýmis konar til þess að gera hann eins raunverulegan og kostur var á en hvað vissa hluti varðaði þurfti að beita ágiskunum. Bærinn er torfhlaðinn.
Gaukur á Stöng nefnist skemmtistaður við Tryggvagötu í Reykjavík.
Bærinn er opinn fyrir ferðamenn að sumri til frá 1. júní til 31. ágúst og er rekinn af Landsvirkjun, forsætisráðuneytinu og Þjóðminjasafni Íslands.