Bardaginn um Stalíngrad
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bardaginn um Stalíngrad umbylti gangi seinni heimsstyrjaldarinnar og er talinn blóðugasti bardagi mannkynssögunar. Bardaginn einkenndist af grimmd og skeytingaleysi gagnvart mannfalli bæði hermanna og borgarbúa beggja vegna víglínunnar. Bardaginn hófst 12. ágúst árið 1942 með umsátri þýska hersins um borgina Stalíngrad í suður Rússlandi, sem nú heitir Volgograd, og í framhaldi af því hófst mikill bardagi um borgina sjálfa sem lauk með því að sovéski herinn umkringdi sjöttu herdeild þýska hersins sem gafst þá upp 2. febrúar 1943. Alls féllu um 2 milljónir manna. Þriðja ríkið tapaði þar miklum mannafla og hergögnum og náði sér ekki á strik eftir það. Sigur Sovétmanna, sem einnig urðu fyrir miklu tjóni, kúventi gangi stríðsins og hófst eftir hann frelsun hernuminna svæða í Sovétríkjunum sem endaði svo með falli Þriðja ríkisins 1945.