England
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
England er stærst og fjölmennast þeirra svæða sem mynda Bretland. Hin svæðin eru Wales, Skotland og Norður-Írland, England á landamæri að Skotlandi í norðri og Wales í vestri en er annars umkringt Norðursjó, Ermarsundi og Írlandshafi. Nafnið er dregið af „englum“ sem er heiti germansks ættflokks frá Slésvík eða þar í kring sem fluttist til Englands ásamt Söxum á 5. og 6. öld. Fjölmennasta borg Englands og reyndar Stóra Bretlands alls er London, hún er einnig höfuðborg Bretlands. Aðrar stórar borgir eru Birmingham, Manchester, Liverpool, Newcastle, og Leeds.