Rín (fljót)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rín er þriðja lengsta fljót í Evrópu og ein mikilvægasta samgönguleið álfunnar. Rín á upptök sín í svissnesku Ölpunum, nálægt St. Gotthard. Hún rennur meðfram landamærum Austurríkis og svo Liechtenstein, uns hún rennur inn í Bodensee. Eftir það myndar hún landamæri milli Sviss og Þýskalands og nokkru seinna landamæri Þýskalands og Frakklands. Eftir langa leið um Þýskaland, þar á meðal um Ruhr-héraðið, rennur hún loks um Holland, þar sem hún rennur til sjávar í Norðursjó. Meðalrennsli fljótsins er um 2.000 m³/sek og það er alls 1.320 km langt.
Margar stórar borgir eru á bökkum Rínarfljóts og eru miklir flutningar upp og niður eftir ánni. Hægt er að sigla upp eftir Rín frá Hollandi og alla leið til Basel og Rheinfelden í Sviss. Áin hefur gegnt mikilvægu hlutverki í hernaði og margir kastalar eru á bökkum hennar. Rín hét Rhenus á tímum Rómverja, en heitir Rhein á þýsku og Rhin á frönsku.