Sparta
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sparta (dóríska: Σπάρτα, attíska: Σπάρτη) er borg á suðurodda Grikklands. Í fornöld var hún höfuðborg borgríkisins Lakedaímón (gríska: Λακεδαιμων) sem almennt er kallað Sparta eftir borginni. Á klassíska tímanum var Sparta voldugast allra grísku borgríkjanna og tilraunir Aþeninga til að velta Spörtu úr þeim sessi leiddu til Pelópsskagastríðanna 431 f.Kr. til 404 f.Kr. og ósigri Aþenu. Hoplítar Spörtu biðu sinn fyrsta ósigur í orrustunni við Leuktra gegn Þebverjum 371 f.Kr. og þegar Filippus frá Makedóníu hóf að leggja Grikkland undir sig var herveldi Spörtu varla nema svipur hjá sjón.
Nútímaborgin Sparta stendur nokkrum kílómetrum frá staðnum þar sem borgin stóð til forna.