Surtarbrandur
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Surtarbrandur öðru nafni mókol eða brúnkol eru samanpressaðar plöntuleifar. Hann er svartleitur eða dökkbrúnn. Elsti hluti berggrunnsins á Íslandi er byggður upp af hraunlögum frá tertíertímabilinu og á mörkum þeirra finnast sums staðar surtarbrandslög. Útflattir trábolir í surtarbrandslögum kallast viðarbrandur. Surtarbrandur er fremur lélegt eldsneyti miðað við erlend brúnkol og er það vegna þess að í honum er mikið af eldfjallaösku.
Munur á steinkolum og brúnkolum felst í hlutfalli kolefnis.
Viður er 50% kolefni. Fyrsta stig steinkolamyndunar er mór, með um 60% kolefni. Þegar mórinn grefst undir fargi jarðlaga verða efnahvörf þar sem mikill hluti vatns, súrefnis, köfnunarefnis og annarra efna hverfa brott og mórinn ummyndast í brúnkol sem hafa 70% hlutfall kolefnis. Í steinkolum er 80% hlutfall kolefnis.
Í fyrri heimstyrjöldinni var surtarbrandur var unninn á nokkrum stöðum á Íslandi til dæmis í Bolungarvík, Botni í Súgandafirði, Tungubökkum á Tjörnesi og Jökulbotnum í Reyðarfirði.