Venus (reikistjarna)
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Venus er önnur reikistjarnan frá sól og sú sjötta stærsta. Sporbraut Venusar er sú sem kemst næst því að vera hringlaga af öllum reikistjörnunum og nemur skekkjan frá hringlögun einungis einu prósenti.
Venus er nefnd eftir hinni rómversku gyðju Venus, sem var gyðja ástar og fegurðar. Nafnið er líklega komið til vegna birtu og lit Venusar séð frá jörðu en hún hefur þótt afar falleg. Fyrirbæri á yfirborði Venusar hafa verið nefnd kvenkyns nöfnum (með nokkrum undantekningum þó). Í kínverskri, japanskri, kóreskri og víetnamskri menningu er hún kölluð Málmstjarnan, byggt á frumefnunum fimm.
Venus hefur þekkst síðan á forsögulegum tíma. Hún er bjartasti hlutur á himinhvelfingunni fyrir utan sólina og tunglið. Eins og Merkúríus var algengt að hún væri talin vera tveir aðskildir hlutir, þ.e. morgunstjarnan Eosphorus og kvöldstjarnan Hesperus. Grísku stjörnufræðingarnir vissu þó betur.
Venus er stundum kölluð systurpláneta jarðar enda eru þær á margan hátt mjög líkar:
- Venus er aðeins örlítið minni en jörðin (95% af þvermáli jarðar og 80% af massa jarðar).
- Báðar hafa þær fáa lofsteinagíga á yfirborði, sem bendir til þess að yfirborð þeirra sé í yngra lagi.
- Eðlisþyngd þeirra og efnafræðileg samsetning er svipuð.
[breyta] Líf
Vegna ofangreindra þátta var talið að neðan við þykka skýjahulu sína væri Venus mjög lík jörðinni og að þar væri jafnvel líf að finna. Frekari rannsóknir hafa þó leitt í ljós að í mörgum veigamiklum atriðum er Venus gjörólík jörðinni og líklega sú reikistjarna innan sólkerfis okkar sem er hvað fjandsamlegust öllu lífi.
Þrýstingur lofthjúpsins við yfirborð Venusar er 90 loftþyngdir. Þetta er nokkurn veginn sami þrýstingur og á 1 km dýpi í höfum jarðarinnar. Lofthjúpurinn er að mestu leyti gerður úr koltvíoxíði (CO²) og honum má skipta í nokkurra kílómetra þykk lög sem samsett eru úr brennisteinssýru. Það eru þessi skýjalög sem valda því að ókleift er að skoða yfirborð reikistörnunnar með sjónaukum. Þéttur lofthjúpur Venusar hefur valdið þar svokölluðum gróðurhúsaáhrifum, sem hafa valdið yfirborðshita upp á 450°C. Hitastigið er í raun tvisvar sinnum hærra en á Merkúríusi þrátt fyrir næstum í tvöfalt meiri fjarlægð frá sólinni.
Lengd dags á Venusi er fjandsamleg lífríki eins og þróast hefur á jörðinni. Einn dagur á Venus (einn snúningur plánetunnar um sjálfa sig) er ígildi 243 daga á jörðu. Árið er styttra á Venusi en dagurinn, það tekur plánetuna aðeins 224 daga að snúast um sólu.
Venus á sér mörg samheiti í íslensku. Má þar til dæmis nefna: Blóðstjarna, Friggjarstjarna, Glaðastjarna, Kvöldstjarna og Morgunstjarna.
Sólkerfið |
Sólin | Merkúríus | Venus | Jörðin (Tunglið) | Mars | Smástirnabeltið |
Júpíter | Satúrnus | Úranus | Neptúnus | Plútó | Kuiper-beltið | Oort-skýið |
Sjá einnig stjarnfræðileg fyrirbæri, og fyrirbæri í sólkerfinu, eftir radíus og massa |